Breskir fjölmiðlamenn fylgjast vel með ferðalagi Liverpool-liðsins til Madrid á Spáni þar sem liðið spilar við Atletico Madrid í undanúrslitum Evrópudeildarinnar á morgun.
Liverpool-menn vöknuðu eldsnemma í París í morgun og drifu sig út á lestastöð þar sem þeir fóru upp í lest á leið til Bordeaux.
Lestarferðin til Bordeaux tekur þrjá og hálfan tíma og þaðan mun Liverpool-liðið síðan fljúga til Madrid.
Liverpool eyddi um tólf tímunum í París en leikmenn voru vaktir upp klukkan 4.30 í morgun til þess að ná lestinni sem fór af stað klukkan 6.30.