Sölvi Geir Ottesen er í byrjunarliði FC Kaupmannahafnar sem mætir Rubin Kazan frá Rússlandi í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Fyrir leikinn var ekki vitað hvort Sölvi eða Mathias Jörgensen myndi spila við hlið Mikael Antonsson í vörn liðsins en Ståle Solbakken, stjóri FCK, valdi Sölva.
Sölvi verður þar með fimmti Íslendingurinn sem spilar í Meistaradeild Evrópu. Hinir eru Eiður Smári Guðjohnsen, Helgi Sigurðsson, Árni Gautur Arason og Eyjólfur Sverrisson.