Innlent

Erfitt að fá menn að borðinu

Menn eru nú tilbúnir að vinna í málinu á ný segir ráðherra.
Menn eru nú tilbúnir að vinna í málinu á ný segir ráðherra. Fréttablaðið/Pjetur

„Það hefur gengið mjög erfiðlega að koma þessum viðræðum aftur í gang eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í mars. En það er jákvætt að menn eru nú tilbúnir til að fara í þessa vinnu aftur," segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Samninganefnd íslenskra stjórnvalda fundaði hér á fimmtudag og í gær með fulltrúum breskra og hollenskra stjórnvalda um lyktir Icesave-málsins. Síðast var fundað um málið 5. mars. Daginn eftir felldi meirihluti kjósenda Icesave-lögin frá því í desember í fyrra í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stefnt var að því að halda viðræðum áfram eftir atkvæðagreiðsluna en af því varð ekki.

Fyrir samninganefndinni fór bandaríski lögfræðingurinn Lee Buchheit auk ráðuneytisstjóranna Guðmundar Árnasonar og Einars Gunnarssonar og lögfræðinganna Jóhannesar Karls Sveinssonar og Lárusar Blöndal. Þeim til ráðgjafar eru sérfræðingar ráðgjafarfyrirtækisins Hawkpoint og lögfræðistofunnar Ashurst.

„Þetta var upplýsingafundur þar sem farið var yfir stöðuna og frekari viðræður undirbúnar. Menn eru sestir við borðið aftur og tilbúnir til að vinna í málinu," segir Steingrímur sem reiknar með að næsti fundur verði boðaður eftir sumarfrí í ágúst. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×