Fótbolti

Þrír meiddir varnarmenn í byrjunarliði Inter um helgina

Ómar Þorgeirsson skrifar
José Mourinho tekur út fyrsta leik sinn af þremur í leikbanni um helgina.
José Mourinho tekur út fyrsta leik sinn af þremur í leikbanni um helgina. Nordic photos/AFP

Ítalíumeistarar Inter eiga í stökustu vandræðum með að manna byrjunarlið sitt fyrir leikinn gegn Udinese í ítölsku deildinni um helgina.

Walter Samuel, Ivan Cordoba, Esteban Cambiasso og Sulley Muntari taka út leikbann ásamt reyndar knattspyrnustjóranum José Mourinho og þar með er höggvið stórt skarð í leikmannahóp Inter.

Þess utan er varnarmaðurinn Cristian Chivu meiddur og því ljóst að Mourinho mun ganga erfiðlega að manna varnarlínu Inter í leiknum því fyrir utan að vera án miðvarðanna Samuel, Cordoba og Chivu þá hefur Cambiasso einnig verið notaður sem miðvörður á þessu tímabili.

Varnarmaðurinn Lucio meiddist einnig í leiknum gegn Chelsea í Meistaradeildinni á miðvikudag og myndi öllu jafna hvíla en hann mun líklega þurfa að harka það af sér vegna manneklu.

Þá greinir Gazzetta dello Sport frá því að varnarmennirnir Marco Materazzi og Davide Santon munu einnig vera beðnir um að spila leikinn þrátt fyrir að vera meiddir.

Það verður því skrautlegt að sjá hvernig meiðslumhrjátt lið Inter mun ganga um helgina en erkifjendurnir í AC Milan eru byrjaðir að anda ofan í hálsmálið á Inter í toppbaráttu ítölsku deildarinnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×