Pep Guardiola segir að rútuferðin sem leikmenn Börsunga þurftu að leggja á sig fyrir leikinn gegn Inter í kvöld sé engin afsökun fyrir að hafa tapað leiknum.
Flugsamgöngur í Evrópu hafa að mestu legið niðri vegna öskunnar sem hefur borist til meginlandsins frá eldgosinu í Eyjafjallajökli. Leikmenn Barcelona þurftu því að fara með rútu til Mílanó sem tók um fjórtán tíma.
„Ég vil engar afsakanir," sagði Guardiola. „Vissulega var þetta löng ferð en þetta var leikur í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Löngunin til að komast í úrslitaleikinn á að vera öllu öðru yfirsterkara."
„Við skoruðum snemma í leiknum en við spiluðum ekki nægilega vel í fyrri hálfleik," sagði Guardiola. „Við mættum sterku liði við erfiðar aðstæður en það er einn leikur eftir og við ætlum að reyna hvað við getum."