Fótbolti

Tvenna Huntelaar kom AC Milan á sigurbraut á nýjan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Klaas Jan Huntelaar fagnar öðru marki sínu með Ronaldinho.
Klaas Jan Huntelaar fagnar öðru marki sínu með Ronaldinho. Mynd/AFP

Hollendingurinn Klaas Jan Huntelaar skoraði tvö mörk í 3-2 sigri AC Milan á Udinese í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld en þetta var fyrsti sigur AC Milan í fimm leikjum og kom á góðum tíma fyrir fyrri leikinn á móti Manchester United í Meistaradeildinni í næstu viku.

Klaas Jan Huntelaar og Alexandre Pato komu AC Milan í 2-0 í fyrri hálfleik en Antonio Floro Flores minnkaði muninn fyrir hálfleik. Huntelaar kom Milan-liðinu síðan í 3-1 áður en Antonio Di Natale minnkaði muninn fjórum mínútum fyrir leikslok með sínu sautjánda marki á tímabilinu.

„Þetta var mikilvægur sigur fyrir okkur því við urðum að vinna til þess að halda í við Roma. Ég verð að vinna mína vinnu og skora mörk. Ég er mjög ánægður með að hafa skorað og hvað þá tvö mörk," sagði Klaas Jan Huntelaar eftir leikinn en AC Milan er nú átta stigum á eftir toppliði Inter en einu stigi á undan Roma sem er í þriðja sætinu.

Brasilíumaðurinn Ronaldinho lagði upp öll þrjú mörk AC Milan liðsins, fyrra mark Huntelaar var skallamark á 7. mínútu leiksins og það seinna skoraði Huntelaar af stuttu færi eftir aukaspyrnu Ronaldinho.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×