Kínverjar eru taldir stunda iðnnjósnir, sem beinast að rannsóknum fyrirtækja á sviði erfðagreiningar og læknisfræði hér á landi. Þetta kemur fram í skýrslum bandaríska sendiráðsins í Reykjavík til utanríkisráðuneytisins í Washington.
Skjölin eru á meðal þeirra sem lekið var til vefsíðunnar Wikileaks, en Fréttablaðið hefur hluta þeirra undir höndum.
Í skýrslu, sem dagsett er 26. febrúar í fyrra, er fjallað um ástand öryggismála á Íslandi. Þar segir:
„Talið er að Kínverjar stundi iðnnjósnir á sviði erfðagreiningar og læknisfræðilegra rannsókna á Íslandi." Skjalið er merkt „leyndarmál" og afrit send leyniþjónustunni CIA, alríkislögreglunni FBI og leyniþjónustu hersins, DIA.
Í annarri skýrslu, sem send er á aðfangadag í fyrra og sömuleiðis merkt sem leyndarmál, er greint frá árlegum fundi gagnnjósnahóps sendiráðsins sem Sam Watson, staðgengill sendiherra, stjórnaði.
Þar kemur fram að Bandaríkjamenn telji að Kínverjar „haldi áfram" iðnnjósnum á Íslandi, annars vegar með hefðbundnum njósnum (human intelligence) og hins vegar með tæknibúnaði, en það getur falið í sér símhleranir og njósnir á netinu, til dæmis innbrot í gagnabanka.
Í sama skjali segir að talið sé að Rússar fylgist með njósnum Kínverja. Staðgengill sendiherra Rússlands í Reykjavík sé álitinn sérfræðingur í málefnum Kína. Þar mun átt við Valery I. Birjúkov sendiráðunaut, en hann starfaði meðal annars í Kína á vegum sovézku utanríkisþjónustunnar á níunda áratugnum.
Kínversk stjórnvöld eru talin stunda umfangsmiklar iðnnjósnir um allan heim. Vestrænir sérfræðingar hafa talið að allt að milljón manns séu á þeirra snærum við að stela viðskiptaleyndarmálum, en Rússar séu næstduglegastir við iðnnjósnirnar, með hundruð þúsunda útsendara.
Í viðtali í brezka blaðinu Guardian í júlí í fyrra sagði hátt settur þýzkur gagnnjósnasérfræðingur, Walter Opfermann, að Kínverjar notuðu margvíslegar aðferðir, allt frá gamaldags njósnurum til símahlerana og netnjósna, til að stela viðskiptaleyndarmálum af þýzkum fyrirtækjum.
„Kínverjar vilja verða mesta efnahagsveldi heims fyrir árið 2020," sagði Opfermann. „Til þess þurfa þeir skjóta og mikla yfirfærslu tæknilegra upplýsinga, sem hægt er að komast yfir í þróuðum iðnríkjum."- óþs /