Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, gerði liðið að tvöföldum meisturum á sínu fyrsta ári með liðið en til þess að hampa þeim stóra þurfti liðið að yfirvinna söguna sem var öll á móti þeim í oddaleiknum.
„Við höfðum engan áhuga á þessari sögu. Ég las Fréttablaðið í morgun og las spá fimm spekinga sem spáðu allir Keflavík sigri. Við vorum ekki að spá í þessum hlutum og ýttum þessu öllu til hliðar. Við vorum bara að spá í því af hverju við vorum komnir á þennan stað," sagði Ingi.
„Við fórum yfir það af hverju við værum komnir hingað og við sýndum það í leiknum," sagði Ingi Þór.
„Þetta var þvílík frammistaða og hjá öllu liðinu. Vörnin í byrjun var klikkuð og það voru allir leikmenn á tánum," sagði Ingi Þór.
„Þetta var ótrúlegt sætt. Við erum búnir að brjóta alveg svakalega íshellu. Við þurftum eitthvað sérstakt til að klára titilinn með því að fara erfiðustu leiðina sem hugsast gat," sagði Ingi Þór.
Körfubolti