Fótbolti

Wiese skammast sín fyrir tapið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts
Tim Wiese, markvörður Werder Bremen, skammast sín fyrir tap liðsins fyrir Stuttgart um helgina en Wiese mátti hirða knöttinn sex sinnum úr eigin marki.

Leiknum lauk með 6-0 sigri Stuttgart sem var í fallsæti fyrir leiki helgarinnar í Þýskalandi. Bremen er um miðja deild en er neðst í A-riðli Meistaradeildar Evrópu með tvö stig eftir fjóra leiki. Thomas Schaaf, stjóri Bremen, er sagður valtur í sessi.

„Þetta er afar neyðarlegt," sagði Wiese. „Ég skammast mín. Hver einasti leikmaður ætti að skammast sín."

„Við veittum þeim enga mótspyrnu," sagði Schaaf sem hefur verið við stjórnvölinn hjá Bremen undanfarin ellefu ár. „Við vorum í hlutverki æfingafélaga hnefaleikakappa sem gerir ekkert annað en að taka móti höggum. Þetta var eins og æfingaleikur. Vandamálin eru of mörg."

Franski varnarmaðurinn Mikael Silvestre gekk í raðir Bremen frá Arsenal í sumar og hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir slaka frammistöðu á tímabilinu. Ekki minnkaði sú gagnrýni um helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×