Erlendur réttarmeinafræðingur er hér á landi og rannsakar líkið af Hannesi Þór Helgasyni sem myrtur var á heimili sínu aðfaranótt sunnudags. Lögregla hefur sleppt karlmanni sem hafði verið í haldi frá því í gær.
Lögreglan sleppti í morgun karlmanni, sem er íslenskur ríkisborgari, en ákveðið var að halda honum eftir yfirheyrslur í gærkvöldi. Í tilkynningu frá lögreglu segir að við nánari rannsókn á atriðum tengdum honum hafi ekki verið efni til að krefjast gæsluvarðhalds yfir manninum.
Þá segir að allt kapp sé lagt á að upplýsa málið og handsama þann sem banaði Hannesi. Rannsókn lögreglu mun halda áfram meðal annars með yfirheyrslum yfir öllum þeim sem tengjast málinu með einum eða öðrum hætti.
Vinnu lögreglu á vettvangi sé að mestu lokið og lífsýni, sem þar voru tekin, hafi verið send á rannsóknarstofu í Svíþjóð til greiningar þar sem aðstaða til slíks sé ekki fyrir hendi hér á landi.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er erlendur réttarmeinafræðingur hér og rannsakar hún líkið en Hannesi mun hafa verið ráðinn bani með eggvopni.
Lögreglan hvetur hvern þann sem telur sig búa yfir upplýsingum sem skipt geta máli fyrir rannsóknina að koma þeim á framfæri í síma 444-1104.