Knútur RE, 30 tonna netabátur sem smíðaður var í kringum 1960, gengur á næstunni í endurnýjun lífdaga sem sjóræningjaskip í skemmtigarðinum í Grafarvogi. Þar mun báturinn vera hluti af nýrri og glæsilegri minigolfbraut sem smíðuð verður í kringum „golfvöllinn“. Þessi ævintýralegi 18 holu golfvöllur verður annar tveggja sem til stendur að opna á svæðinu.
Minigolf er ein vinsælasta afþreying í skemmtigörðum um heim allan í dag og skiptir þá sviðsmyndin hvað mestu máli. Knútur RE mun setja mikinn svip á svæðið en undanfarin ár hefur hann legið verkefnalaus við slippinn í Reykjanesbæ. Knútur var fluttur í lögreglufylgd í skemmtigarðinn í Grafarvogi í gær þar sem gagngerar breytingar á honum hefjast næstu daga. - shá