„Þeir hitta svakalega vel hér í kvöld á meðan við klúðrum meðal annars tveimur troðslum. Það er kannski lýsandi fyrir leikinn í kvöld," sagði KR-ingurinn Brynjar Þór Björnsson eftir tapið gegn Snæfelli í kvöld.
„Það er gaman að hlusta á þá syngja olé, olé en við komum í Hólminn og vinnum næsta leik. Það er alveg klárt mál," sagði Brynjar en KR-ingar áttu mjög erfitt uppdráttar lengstum í kvöld.
„Sóknarleikurinn var ekki nógu smurður og þeir létu okkur vissulega hafa fyrir hlutunum. Við megum samt ekki bakka og verðum að halda áfram að keyra á þá. Þeir spiluðu mjög vel, það verður ekki tekið af þeim."
Brynjar hefur engan veginn fundið sig í úrslitakeppninni og náði sér heldur ekki á strik í kvöld.
„Ég hef engar áhyggjur af því. Þeir leggja mikla áherslu á að dekka mig, maður finnur það mjög vel. Ég á samt mikið inni. Það koma stundum leikir þegar hlutirnir ganga ekki upp. Það er annars ekkert svartnætti hjá okkur. Þetta var bara fyrsti leikur og það þarf að vinna þrjá."