José Mourinho, þjálfari Real Madrid, hefur sagt sínum gömlu lærisveinum í Chelsea að passa sig á Sölva Geir Ottesen og félögum í FC Kaupmannahöfn sem verða mótherjar ensku meistaranna í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
„FC Kaupmannahöfn sýndi það í riðlakeppninni að þeir eru kannski ekki með eins sterka og hæfileikaríka leikmenn og önnur lið í keppninni en þeir eru mjög vel skipulagðir. Þetta verður ekki eins létt fyrir Chelsea og margir halda," sagði José Mourinho.
Þegar portúglaski stjórinn var síðan spurður út í hvort liðið færi áfram þá stóð ekki á svari. „Auðvitað reikna ég með því að Chelsea fari áfram," sagði Mourinho.
Liðin mætast í fyrri leiknum á Parken í Kaupmannahöfn 22. febrúar og seinni leikurinn fer síðan fram á Stamford Bridge 16 mars.
