Langri veru Tiger Woods á toppi heimslistans í golfi lýkur að öllu óbreyttu þann 31. október næstkomandi.
Þá mun Englendingurinn Lee Westwood komast upp fyrir Tiger sem hefur setið í toppsætinu í rúmlega fimm ár. Tiger mun því ná 279 vikum á toppnum sem er magnað afrek.
Ef hvorugur þeirra spilar aftur fyrr en í nóvember mun Westwood komast upp fyrir Tiger.
Hann mun ekki spila á næstunni vegna ökklameiðsla og Tiger hefur ekki boðað komu sína á mót fyrr en í byrjun nóvember.
Þjóðverjinn Martin Kaymer gæti reyndar skotist upp fyrir þá báða því hann tekur þátt í móti í þessum mánuði. Hann er í fantaformi og hefur unnið síðustu þrjú mót sem hann hefur tekið þátt í.
Góður árangur í næsta móti gæti því dugað honum til að taka toppsætið.