Fótbolti

Höness og Van Gaal vinir á ný

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Uli Höness og Louis van Gaal.
Uli Höness og Louis van Gaal. Nordic Photos / Bongarts
Uli Höness, forseti Bayern München, og Louis van Gaal, knattspyrnustjóri félagsins, hittust í gær til að hreinsa loftið á milli þeirra og sættast eftir að hafa skipst á skotum í fjölmiðlum síðustu daga.

Höness gagnrýndi fyrst Van Gaal fyrir að taka ekki mark á öðrum í kringum sig og að vera of fljótur til að afskrifa leikmenn.

Van Gaal svaraði með því að segja að ummæli forsetans hefði valdið honum miklum vonbrigðum. Einnig að Höness hefði ekki gert sér grein fyrir hvaða áhrif ummæli sín gætu haft.

Bayern mætir rúmenska liðinu Cluj í Meistaradeild Evrópu í kvöld og funduðu þeir Höness og Van Gaal í gærkvöldi ásamt þremur öðrum, til að mynda Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformanni félagsins.

„Þarna áttu sér stað opinskáar umræður þar sem skipst var á skoðunum," sagði í yfirlýsingu á heimasíðu Bayern í gær.

„Það var líka ákveðið að þessir aðilar myndu hittast oftar í framtíðinni og ræða öll þau málefni sem varða Bayern München."

„Að lokum tókust þeir Uli Höness og Louis van Gaal í hendur og voru sammála um að halda áfram að vinna saman í framtíðinni á skynsamlegan máta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×