Fótbolti

Helgi ráðinn aðaþjálfari Pfullendorf

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helgi Kolviðsson með Walter Schneck.
Helgi Kolviðsson með Walter Schneck. Mynd/Heimasíða Pfullendorf

Helgi Kolviðsson hefur verið ráðinn aðalþjálfari þýska D-deildarliðsins SC Pfullendorf en það var tilkynnt á heimasíðu félagsins í gær.

Helgi lék sjálfur á sínum tíma með félaginu og hefur verið aðstoðarþjálfari þess undanfarin tvö ár.

Þar áður var hann hins vegar fenginn til að stýra liðinu í nokkra mánuði eftir að þáverandi þjálfari var rekinn. En þar sem hann var ekki með tilskilin þjálfararéttindi fékk hann ekki að halda áfram í starfi.

Helgi lauk við A-þjálfaragráðu sína nú í vetur tekur því við starfi aðalþjálfara nú. Walter Schneck var fenginn til að vera þjálfari undanfarin tvö ár en verður nú yfirmaður knattspyrnumála eins og stóð reyndar alltaf til.

Helgi á langan feril að baki bæði í Þýskalandi og Austurríki. Hann lék bæði með HK og ÍK hér á landi áður en hann fór fyrst til Pfullendorf árið 1994. Eftir það lék hann með Mainz og Ulm í Þýskalandi og Lustenau og Kärnten í Austurríki. Hann sneri svo aftur til Pfullendorf sem leikmaður árið 2003 og lék með liðinu þar til hann lagði skóna á hilluna árið 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×