Þorvaldur Gylfason: Að glíma við Hæstarétt Þorvaldur Gylfason skrifar 20. maí 2010 11:15 Þrískipting valdsins í lýðræðisríkjum milli framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds hvílir á þeirri grundvallarhugsjón, að engum valdþáttanna þriggja er ætlað að drottna yfir hinum tveim. Þeim er ætlað að vegast á. Þaðan er runnin hugmyndin um valdmörk og mótvægi (e. checks and balances), þar sem hver valdþáttur veitir öðrum gagnkvæmt aðhald og eftirlit. Ef einn valdþáttanna þriggja virðist ætla að vaxa hinum tveim yfir höfuð eða beygja sig undir hina tvo, þarf að bregðast við til að gæta þess jafnræðis, sem að er stefnt. Slíku jafnræði er ekki til að dreifa hér á landi eins og dæmin sanna. Hér hefur framkvæmdarvaldið beygt bæði löggjafarvaldið og dómsvaldið undir vilja sinn gegn anda stjórnarskrárinnar og ef til vill einnig gegn bókstaf hennar, svo sem færi mun gefast til að gaumgæfa við þá löngu tímabæru endurskoðun eða endursamningu stjórnarskrárinnar, sem nú stendur fyrir dyrum. Í 60. gr. stjórnarskrárinnar er vikið berum orðum að þrískiptingu valdsins, en þar segir: „Dómendur skera úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda." Hér er vikið með beinum hætti að eftirlitshlutverki Hæstaréttar gagnvart öðrum valdhöfum. Óskorað traust Stjórnmálaflokkarnir hafa áratugum saman látið undir höfuð leggjast að endurskoða stjórnarskrána. Tregðan virðist endurspegla ófýsi flokkanna til að deila framkvæmdarvaldinu með löggjafanum og dómskerfinu. Í þessu ljósi þarf að skoða tillögu mína um umskipun og aukið sjálfstæði Hæstaréttar, áður en fjöldi mála, sem tengjast bankahruninu, kemur til kasta réttarins, svo sem ég lýsti á þessum stað fyrir viku. Tillagan helgast af nauðsyn þess að treysta stöðu Hæstaréttar í væntanlegum málarekstri, sem kann að varða fyrrum handhafa framkvæmdarvaldsins og embættismenn auk eigenda og stjórnenda bankanna. Hæstiréttur verður alltaf, og ekki sízt við þær aðstæður, sem nú eru uppi, að verðskulda fullt og óskorað traust fólksins í landinu. Kjarni málsins er sá, að löggjafinn eða framkvæmdarvaldið getur þurft að skipta sér af Hæstarétti, ef staða hans verður of veik gagnvart hinum tveim eða ef hún verður of sterk. Tillaga mín um endurskipun Hæstaréttar í samhengi við umskipun dómskerfisins, svo sem stjórnarskráin leyfir, hvílir á þessari forsendu. Fyrir stjórnvöldum hafa lengi legið tillögur frá dómarafélaginu og öðrum um að umskipa dómsvaldinu með því að fjölga dómstigunum úr tveim í þrjú, svo að nýtt millidómstig taki við málum, sem áfrýjað er úr héraði, og Hæstiréttur dæmi aðeins í þeim málum, sem mikilvægust eru talin, og hafi þá betri skilyrði en hann hefur nú til að standa vel að verki. Sé þetta gert, er hægt að leggja niður störf allra dómara í Hæstarétti samkvæmt skýrri heimild í 61. grein stjórnarskrárinnar, en þar segir um dómara: „… og ekki verða þeir heldur fluttir í annað embætti á móti vilja þeirra nema þegar svo stendur á, að verið er að koma nýrri skipun á dómstólana." Þá er hægt að skipa dómara í Hæstarétt upp á nýtt með nýrri aðferð, þar sem erlendir sérfræðingar verða fengnir til að hjálpa til við að meta hæfi umsækjenda og girða fyrir landlægan klíkuskap og nápot. Fyrri dómarar hefðu sama rétt og aðrir til að sækja um störfin. Fordæmi Roosevelts Svipaður vandi kom upp í Bandaríkjunum í stjórnartíð Franklins D. Roosevelt forseta. Hann náði fyrst kjöri 1932 og hófst fljótlega handa um ýmsar aðgerðir og umbætur til að lyfta landinu upp úr kreppunni, sem Herbert Hoover, forveri hans í Hvíta húsinu, hafði látið afskiptalausa í þeirri trú, að markaðsöflin myndu sjálfkrafa reisa efnahagslífið við og eyða atvinnuleysinu. Roosevelt áttaði sig að vísu ekki á því líkt og sænska ríkisstjórnin um sama leyti, að hægt væri að nota aukin útgjöld ríkisins og minni skattheimtu til að örva atvinnulífið eins og iðnríkin hafa nú gert til að forða heimsbúskapnum frá kreppu. Forsetinn skildi samt, að sértækar staðbundnar ráðstafanir gátu gert gagn. Og þá rak hann sig á Hæstarétt, sem felldi sum bjargráðin úr gildi á þeirri lagalegu forsendu, að þau stæðust ekki stjórnarskrána. Roosevelt grunaði Hæstarétt um fylgispekt við andstæðinga umbótaáætlunar sinnar og taldi, að við svo búið mætti ekki standa. Hann hótaði því 1937 að beita sér fyrir lagabreytingu í þá veru, að fjölgað yrði í Hæstarétti í ljósi þess, að margir dómarar voru þá á áttræðisaldri, svo að efast mátti um starfsþrek þeirra. Hæstiréttur skildi skilaboðin og stóð ekki eftir þetta í vegi fyrir kreppuráðstöfunum Roosevelts. Æ síðan hafa þessi skilaboð Roosevelts til Hæstaréttar þótt orka tvímælis. Sumir telja, að Roosevelt hafi með þessu móti ýft stjórnmálaerjur um réttinn og í honum langt fram í tímann. Aðrir benda á, að skilaboðin hrifu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Konungar markaðarins Eiríkur Ingi Magnússon Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Þrískipting valdsins í lýðræðisríkjum milli framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds hvílir á þeirri grundvallarhugsjón, að engum valdþáttanna þriggja er ætlað að drottna yfir hinum tveim. Þeim er ætlað að vegast á. Þaðan er runnin hugmyndin um valdmörk og mótvægi (e. checks and balances), þar sem hver valdþáttur veitir öðrum gagnkvæmt aðhald og eftirlit. Ef einn valdþáttanna þriggja virðist ætla að vaxa hinum tveim yfir höfuð eða beygja sig undir hina tvo, þarf að bregðast við til að gæta þess jafnræðis, sem að er stefnt. Slíku jafnræði er ekki til að dreifa hér á landi eins og dæmin sanna. Hér hefur framkvæmdarvaldið beygt bæði löggjafarvaldið og dómsvaldið undir vilja sinn gegn anda stjórnarskrárinnar og ef til vill einnig gegn bókstaf hennar, svo sem færi mun gefast til að gaumgæfa við þá löngu tímabæru endurskoðun eða endursamningu stjórnarskrárinnar, sem nú stendur fyrir dyrum. Í 60. gr. stjórnarskrárinnar er vikið berum orðum að þrískiptingu valdsins, en þar segir: „Dómendur skera úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda." Hér er vikið með beinum hætti að eftirlitshlutverki Hæstaréttar gagnvart öðrum valdhöfum. Óskorað traust Stjórnmálaflokkarnir hafa áratugum saman látið undir höfuð leggjast að endurskoða stjórnarskrána. Tregðan virðist endurspegla ófýsi flokkanna til að deila framkvæmdarvaldinu með löggjafanum og dómskerfinu. Í þessu ljósi þarf að skoða tillögu mína um umskipun og aukið sjálfstæði Hæstaréttar, áður en fjöldi mála, sem tengjast bankahruninu, kemur til kasta réttarins, svo sem ég lýsti á þessum stað fyrir viku. Tillagan helgast af nauðsyn þess að treysta stöðu Hæstaréttar í væntanlegum málarekstri, sem kann að varða fyrrum handhafa framkvæmdarvaldsins og embættismenn auk eigenda og stjórnenda bankanna. Hæstiréttur verður alltaf, og ekki sízt við þær aðstæður, sem nú eru uppi, að verðskulda fullt og óskorað traust fólksins í landinu. Kjarni málsins er sá, að löggjafinn eða framkvæmdarvaldið getur þurft að skipta sér af Hæstarétti, ef staða hans verður of veik gagnvart hinum tveim eða ef hún verður of sterk. Tillaga mín um endurskipun Hæstaréttar í samhengi við umskipun dómskerfisins, svo sem stjórnarskráin leyfir, hvílir á þessari forsendu. Fyrir stjórnvöldum hafa lengi legið tillögur frá dómarafélaginu og öðrum um að umskipa dómsvaldinu með því að fjölga dómstigunum úr tveim í þrjú, svo að nýtt millidómstig taki við málum, sem áfrýjað er úr héraði, og Hæstiréttur dæmi aðeins í þeim málum, sem mikilvægust eru talin, og hafi þá betri skilyrði en hann hefur nú til að standa vel að verki. Sé þetta gert, er hægt að leggja niður störf allra dómara í Hæstarétti samkvæmt skýrri heimild í 61. grein stjórnarskrárinnar, en þar segir um dómara: „… og ekki verða þeir heldur fluttir í annað embætti á móti vilja þeirra nema þegar svo stendur á, að verið er að koma nýrri skipun á dómstólana." Þá er hægt að skipa dómara í Hæstarétt upp á nýtt með nýrri aðferð, þar sem erlendir sérfræðingar verða fengnir til að hjálpa til við að meta hæfi umsækjenda og girða fyrir landlægan klíkuskap og nápot. Fyrri dómarar hefðu sama rétt og aðrir til að sækja um störfin. Fordæmi Roosevelts Svipaður vandi kom upp í Bandaríkjunum í stjórnartíð Franklins D. Roosevelt forseta. Hann náði fyrst kjöri 1932 og hófst fljótlega handa um ýmsar aðgerðir og umbætur til að lyfta landinu upp úr kreppunni, sem Herbert Hoover, forveri hans í Hvíta húsinu, hafði látið afskiptalausa í þeirri trú, að markaðsöflin myndu sjálfkrafa reisa efnahagslífið við og eyða atvinnuleysinu. Roosevelt áttaði sig að vísu ekki á því líkt og sænska ríkisstjórnin um sama leyti, að hægt væri að nota aukin útgjöld ríkisins og minni skattheimtu til að örva atvinnulífið eins og iðnríkin hafa nú gert til að forða heimsbúskapnum frá kreppu. Forsetinn skildi samt, að sértækar staðbundnar ráðstafanir gátu gert gagn. Og þá rak hann sig á Hæstarétt, sem felldi sum bjargráðin úr gildi á þeirri lagalegu forsendu, að þau stæðust ekki stjórnarskrána. Roosevelt grunaði Hæstarétt um fylgispekt við andstæðinga umbótaáætlunar sinnar og taldi, að við svo búið mætti ekki standa. Hann hótaði því 1937 að beita sér fyrir lagabreytingu í þá veru, að fjölgað yrði í Hæstarétti í ljósi þess, að margir dómarar voru þá á áttræðisaldri, svo að efast mátti um starfsþrek þeirra. Hæstiréttur skildi skilaboðin og stóð ekki eftir þetta í vegi fyrir kreppuráðstöfunum Roosevelts. Æ síðan hafa þessi skilaboð Roosevelts til Hæstaréttar þótt orka tvímælis. Sumir telja, að Roosevelt hafi með þessu móti ýft stjórnmálaerjur um réttinn og í honum langt fram í tímann. Aðrir benda á, að skilaboðin hrifu.