Innlent

Hnífurinn enn í rannsókn

Gunnar Rúnar Sigurþórsson.
Gunnar Rúnar Sigurþórsson.

Bráðabirgðarniðurstöður lífsýna sýndu ekki fram á með óyggjandi hætti að blóðið, sem fannst á skó Gunnars Rúnars Sigurþórssonar, hafi verið úr Hannesi Þór Helgasyni, sem Gunnar hefur játað að hafa myrt í ágúst síðastliðnum.

Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn segir meint morðvopn enn í rannsókn í Svíþjóð en niðurstöður liggja ekki fyrir hvað vopnið varðar.

Friðrik segist ekki geta greint frá niðurstöðum einstakra lífsýna og tekur fram að rannsókn málsins sé næstum lokið. Gunnar hefur játað glæpinn auk þess sem blóðugt skófar fannst á morðvettangi.

Hann segist vonast til þess að geta sent málið til ríkissaksóknara innan daga frekar en vikna og segir það velta á því hversu vel gangi að fá niðurstöður lífsýna frá Svíþjóð, krufningsskýrslu og svo mat á geðheilsu Gunnars Rúnars.

Gunnar Rúnar hefur játað að hafa orðið Hannesi að bana með eggvopni um miðjan ágúst. Árásin var hrottafengin en Hannes var sofandi í rúmi sínu þegar Gunnar kom að honum og stakk hann.

Það tók tvær vikur að rannsaka málið þangað til Gunnar Rúnar játaði morðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×