Þjóðverjinn Sebastian Vettel hjá Red Bull vann malaíska kappaksturinn í formúlu eitt í morgun en þetta var fyrsti sigur hans á tímabilinu. Þetta var góður dagur fyrir Red Bull liðið því félagi Vettel, Mark Webber, varð í 2. sæti eftir að hafa byrjað á ráspólnum en missti Vettel fram úr sér í byrjun.
Sebastian Vettel var í góðri stöðu í fyrstu tveimur keppnunum í Barein og Ástralíu en vandræði með bílinn kostuðu hann sigurinn í þeim báðum. Nú hélt bíllinn út og Vettel vann glæsilegan sigur.
Nico Rosberg hjá Mercedes varð í þriðja sæti í kappakstrinum en McLaren-mennirnir Lewis Hamilton og Jenson Button náðu aðeins sjötta og áttunda sæti.
Felipe Massa hjá Ferrari hefur forustuna í keppni ökumanna þrátt fyrir að hafa endað í sjöunda sæti en Fernando Alonso varð að hætta keppni í lok kappakstursins í dag. Spennan er orðið mjög mikil þar sem munar aðeins fjórum stigum á efstu fimm ökumönnunum.
Michael Schumacher varð að hætta keppni eftir níu hringi þegar bíllinn hans bilaði en Schumacher er aðeins í 10. sæti í keppni ökumanna.
Lokaröð keppenda í Malasíu-kappakstrinum:
1. Sebastian Vettel,Red Bull-Renault 25 stig
2. Mark Webber, Red Bull-Renault 18 stig
3. Nico Rosberg, Mercedes GP 15 stig
4. Robert Kubica, Renault 12 stig
5. Adrian Sutil, Force India-Mercedes 10 stig
6. Lewis Hamilton, McLaren-Mercedes 8 stig
7. Felipe Massa, Ferrari 6 stig
8. Jenson Button, McLaren-Mercedes 4 stig
9. Jaime Alguersuari, Toro Rosso-Ferrari 2 stig
10. Nico Hulkenberg, Williams-Cosworth 1 stig
Staðan í keppni ökumanna um heimsmeistaratitilinn:
1. Felipe Massa, Ferrari 39 stig
2. Fernando Alonso, Ferrari 37 stig
3. Sebastian Vettel, Red Bull-Renault 37 stig
4. Jenson Button, McLaren-Mercedes 35 stig
5. Nico Rosberg, Mercedes GP 35 stig
6. Lewis Hamilton, McLaren-Mercedes 31 stig
7. Robert Kubica, Renault 30 stig
8. Mark Webber, Red Bull-Renault 24 stig
9. Adrian Sutil, Force India-Mercedes 10 stig
10. Michael Schumacher, Mercedes GP 9 stig

