Fótbolti

Milan og Juventus gætu skipst á framherjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Trezeguet á æfingu með Juventus.
David Trezeguet á æfingu með Juventus. Nordic Photos / AFP

Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að mögulegt er að Milan og Juventus gætu skipst á framherjum - þeim Klaas-Jan Huntelaar og David Trezeguet.

Talið er líklegt að Luigi Del Neri verði næsti þjálfari Juventus og hefur verið fullyrt í fjölmiðlum að hann hafi ekki áhuga á að nota Trezeguet í sínu liði.

Sjálfur hefur Trezeguet sagt að hann sé spenntur fyrir því að spila fyrir Milan og félagið sagt reiðubúið að láta Trezeguet ganga upp í kaupverðið fyrir Huntelaar.

Huntellar gekk í raðir AC Milan frá Real Madrid í ágúst síðastliðnum fyrir fimmtán milljónir evra og skrifaði þá undir fjögurra ára samning. Hann átti þó erfitt með að vinna sér fast sæti í byrjunarliðinu og hefur alls skorað sjö mörk í 26 leikjum í vetur.

David Trezeguet hefur verið á mála hjá Juventus undanfarinn áratug og á þeim tíma hefur hann skorað alls 168 mörk í 309 leikjum með félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×