Fótbolti

Inter áfrýjar gegn leikbönnum - Mourinho lýsir yfir sakleysi sínu

Ómar Þorgeirsson skrifar
José Mourino í leiknum gegn Sampdoria.
José Mourino í leiknum gegn Sampdoria. Nordic photos/AFP

Ítalíumeistarar Inter hafa áfrýjað gegn leikbönnum sem aganefnd ítalska knattspyrnusambandsins dæmdi á hendur knattspyrnustjóranum José Mourinho og leikmannanna Esteban Cambiasso og Sulley Muntari.

Mourinho var dæmdur í þriggja leikja bann fyrir að svívirða ítrekað dómara og aðstoðardómara leiksins gegn Sampdoria í ítölsku deildinni um síðustu helgi og láta líta út fyrir eins og hann væri í handjárnum með því að krossleggja hendur og lyfta þeim á loft.

Inter missti tvo leikmenn af velli í fyrri hálfleik í leiknum en það voru miðverðirnir Walter Samuel og Ivan Cordoba en leikurinn endaði 0-0 og fara varnarmennirnir sjálfkrafa í eins leiks bann.

Muntari fékk hins vegar tveggja leikja bann fyrir að svívirða dómarann þegar hann var á leið útaf vellinum og Cambiasso fékk einnig tveggja leikja bann fyrir að reyna að kýla leikmann Sampdoria í leikmannagöngunum á leið til búningsherbergja eftir leikinn.

Ekki liggur ljóst fyrir að svo stöddu hvenær áfrýjanirnar verða teknar fyrir en Mourinho lýsir yfir sakleysi sínu í málinu og talsmaður hans segir að látbragð hans hafi verið rangtúlkað.

„Það sem Mourinho var að gera hafði ekkert að gera með dómarann og var ekki skilaboð til hans. Það sem hann var að meina var að það væri hægt að handtaka hann og færa hann í burtu en það myndi ekki komi í veg fyrir að Inter myndi vinna, jafnvel þó svo að liðið spilaði tveimur leikmönnum færri," sagði talmaðurinn Eladio Parames í viðtali við ANSA í dag.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×