Fótbolti

Real vann Atletico - Áfram hnífjafnt á toppnum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Gonzalo Higuain, Cristiano Ronaldo og  Xabi Alonso hressir og kátir.
Gonzalo Higuain, Cristiano Ronaldo og Xabi Alonso hressir og kátir.

Real Madrid og Barcelona eru áfram hnífjöfn á toppi spænsku deildarinnar, bæði með 74 stig. Real Madrid vann í kvöld 3-2 sigur gegn grönnunum í Atletico Madrid.

Real hefur betri markatölu en Barcelona en það telur þó lítið á Spáni þar sem innbyrðis viðureignir gilda framyfir. Þessi tvö risalið mætast einmitt eftir tæplega tvær vikur.

Atletico var með forystu í hálfleik eftir mark Jose Antonio Reyes. Heimamenn komu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og þegar tíu mínútur voru liðnar af honum voru þeir komnir yfir. Fyrrum Liverpool-leikmennirnir Xabi Alonso og Alvaro Arbeloa skoruðu.

Argentínumaðurinn Gonzalo Higuain skoraði síðan þriðja mark Real áður en Diego Forlan minnkaði muninn úr vítaspyrnu.

Hér að neðan má sjá úrslitin á Spáni í dag. Sevilla tapaði illa fyrir Villareal en þetta var fyrsti leikur Antonio Alvarez við stjórnvölinn hjá Sevilla. Hann var aðstoðarþjálfari liðsins en stýrir því út tímabilið eftir að Manolo Jimenez var rekinn á dögunum.

Tvö neðstu lið deildarinnar mættust einnig í dag en þar vann botnlið Xerez sigur á Valladolid.

Deportivo La Coruna - Getafe 1-3

Espanyol - Sporting Gijon 0-0

Osasuna - Almeria 1-0

Xerez - Valladolid 3-0

Villarreal - Sevilla 3-0

Real Madrid - Atletico Madrid 3-2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×