Fótbolti

Xavi: Messi jafnvel betri en Maradona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Xavi, leikmaður spænska landsliðsins og Barcelona, er í ítarlegu viðtali á heimasíðu FIFA þar sem hann lýsir aðdáun sinni á Lionel Messi, liðsfélaga sínum.

Xavi var frábær á HM í sumar er Spánverjar urðu heimsmeistarar og er einn þeirra sem kemur til greina sem leikmaður ársins hjá FIFA.

Hann var spurður hvort að hann sæi fyrir sér að hann myndi hreppa hnossið.

„Ég segi nú eins og ég hef alltaf sagt. Ég vona að spænskur leikmaður verði fyrir valinu - ef ekki þá vona ég að vinur minn Leo Messi verði valinn."

„Það er enginn vafi á því að hann er besti leikmaður heims. Hann mun vinna til þessara verðlauna nokkrum sinnum til viðbótar," sagði Xavi en Messi varð efstur í þessu kjöri í fyrra.

„Leikmaður eins og Messi kemur aðeins fram einu sinni á 50 ára fresti. Ástæðan fyrir því að við hinir eigum möguleika á að vinna þessi verðlaun nú er að Argentínu gekk ekki það vel á HM í sumar. Ef farið hefði betur fyrir liðinu væri þetta ekkert vafamál."

„Mér finnst að Leo sé jafnvel betri í dag en [Diego] Maradona var á sínum tíma. Hann verður á toppnum í mörg ár til viðbótar og það er enginn til sem líkist honum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×