Þrír leikir fara fram í Iceland Express-deild karla í körfubolta í kvöld þar sem hæst ber viðureign Stjörnunnar og Grindavíkur í Ásgarði í Garðabæ.
Þá taka nýkrýndir Subway-bikarmeistarar Snæfells á móti ÍR í Fjárhúsinu í Stykkishólmi og FSu heimsækir Fjölni í Dalhús í Grafarvogi.
Stjarnan er fyrir leiki kvöldsins í þriðja sæti deildarinnar með tveggja stiga forskot á Grindavík sem er í fjórða sætinu, með jafnmörg stig og Snæfell og Njarðvík.
ÍR og Fjölnir eru hins vegar í baráttunni á hinum endanum um sæti í úrslitakeppninni en ÍR er í áttunda sæti, tveimur stigum fyrir ofan Fjölni sem er í tíunda sætinu.
FSu er aftur á móti á botni deildarinnar með aðeins einn sigur úr sautján leikjum til þessa.
Leikir kvöldsins:
Stjarnan-Grindavík kl. 19.15
Snæfell-ÍR kl. 19.15
Fjölnir-FSu kl. 19.15