Kylfingurinn Vijay Singh frá Fiji-eyjum fékk albatross á þriðja hring á Deutsche Bank Championship mótinu sem fram fer í Boston á PGA-mótaröðinni.
Singh sló öðru höggi sínu á 2. holu vallarins beint í holuna og fór því þessa par-5 braut á þremur höggum undir pari. Hann sló með 5-járni af um 200 metra færi, yfir vatn og lenti boltinn svo á flötinni áður en hann rúllaði beint í holuna.
Singh er sjötti kylfingurinn á PGA-mótaröðinni í ár til að fá albatross og er þetta í fyrsta sinn á ferlinum sem hann nær þessum áfanga í móti.