Körfubolti

Teitur: Ætluðum ekki að vera liðið sem gæfi þeim sjálfstraustið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar.
Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar.
Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar var að sjálfsögðu ekki sáttur eftir 14 stiga tap á móti hans gamla félagi í 32 liða úrslitum Powerade-bikarsins í kvöld. Njarðvík vann þá sannfærandi og öruggan 110-94 sigur á slöku Stjörnuliði.

„Við töluðum um það á æfingunni í gær og fyrir leikinn að Njarðvík væri svona lið sem var að leita að sjálfstraustinu sínu. Við töluðum um það að við ætluðum ekki að færa þeim það. Við gáfum þeim það hinsvegar í fyrsta leikhlutanum og mínir menn voru bara týndir í fyrsta leikhluta," sagði Teitur.

„Við mættum ofboðslega daprir inn í leikinn. Það var talað um að taka á þeim en vörnin var þannig að við vonuðum að þeir myndu ekki hitta," segir Teitur.

„Auðvitað er að koma betri mynd á Njarðvíkurliðið og vissum að Þeir eru ekki svona lélegir eins og þeir eru búnir að vera í haust. Maður sá það í dag að þetta er að slípast til hjá þeim," sagði Teitur.

„Þeir fengu skotin sín og þar með þetta sjálftraust sem sést á því að ég held að það hafi tíu leikmenn skorað hjá þeim í fyrri hálfleik. Það segir mjög mikið á meðan að fimm menn skoruðu hjá okkur," sagði Teitur.

Stjarnan lenti tíu stigum undir í upphafi leiks en náði að vinna sig inn í leikinn og komst einu stigi yfir. Njarðvík endaði hinsvegar hálfleikinn á 19-6 spretti og var þrettán stigum yfir í hálfeik.

„Það mjög dýrt að missa þá aftur frá okkur eftir að hafa náð að jafna leikinn. Við fengum þá mjög gott framlag frá bekknum okkar og þeir komu okkur inn í þetta aftur. Svo var þetta aftur komið í þrettán stig í hálfleik. Það er mjög erfitt að gera þetta mörgum sinnum í leik og sérstaklega á móti svona sterku liði eins og Njarðvíkurliðið er," segir Teitur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×