Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, var sammála blaðamanni um að spilamennska liðsins gegn Snæfelli í kvöld hafi verið of sveiflukennd.
„Við spiluðum bara ekki nægilega vel og gátum oft gert betur. Það er í raun bara furðulegt að við höfum verið inni í leiknum allan tímann miðað við hvernig við spiluðum," sagði Teitur en Garðbæingar hafa nú tapað tveimur leikjum í röð.
„Við erum frekar þunnir núna og ekki nægilega margir sem hafa afrekað eitthvað inni á vellinum. Það er að bíta á. Við megum ekki við neinum meiðslum. Þetta er mjög erfitt en samt engin afsökun fyrir því að við spiluðum ekki betur í dag."