Fótbolti

Nýi landsliðsþjálfari Ítala valdi ólátabelgina í landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Cassano.
Antonio Cassano. Mynd/AFP
Cesare Prandelli, nýi landsliðsþjálfari Ítala, hefur kallað á framherjana Mario Balotelli og Antonio Cassano inn í ítalska landsliðið fyrir vináttuleik á móti Fílabeinsströndinni á mánudaginn.

Marcello Lippi, fyrrum þjálfari ítalska landsliðsins, valdi hvorugan leikmann í landsliðið á HM í Suður-Afríku en þrátt fyrir flotta frammistöðu inn á vellinum þykja þeir Balotelli og Cassano erfiðir í samskiptum og duglegir að koma sér í vandræði.

Mario Balotelli er 19 ára og leikur með Inter Milan en hefur verið mikið orðaður við Manchester City í sumar. Hann var með 9 mörk og 6 stoðsendingar í 26 deildarleikjum með Inter á síðasta tímabili.

Antonio Cassano er 28 ára gamall og leikur með Sampdoria. Hann hefur þótt vera einn af betri leikmönnum ítölsku deildarinanr en hefur ekki spilað með landsliðinu í langan tíma og á aðeins 15 landsleiki að baki.

Prandelli valdi aðeins níu leikmenn úr HM-hóp Ítala sem sátu eftir í riðlakeppninni eftir 3-2 tap á móti Slóvakíu í lokaleiknum. Það var vandræðaleg niðurstaða fyrir heimsmeistarana sem þóttu mjög heppnir með sinn riðil í keppninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×