Alþjóðadeild Ríkislögreglustjórans hefur engin viðbrögð fengið vegna framsalsbeiðni á hendur Steingrími Þór Ólafssyni, sem er í haldi í Venesúela, grunaður um að vera höfuðpaur í fjársvikamáli hér á landi.
Steingrímur var handtekinn í lok september eftir að lögreglan gaf út alþjóðlega handtökuskipun en hann er grunaður um að hafa fengið í hendur þær 270 milljónir króna, sem sviknar voru út í virðisaukaskattsmálinu.
Rannsókn lögreglu beinist meðal annars að því hvort hann hafi skipulagt fjársvikin.
Samkvæmt upplýsingum frá alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra þá hefur fangi ekki áður verið framseldur frá Venesúela og því óljóst hversu langan tíma það taki að fá hann hingað til lands.
Ekki er óalgengt að það taki um 6 vikur að fá fanga framselda frá Evrópulöndum en það er dómsmálaráðuneytið sem óskar eftir framsalinu.
Auk Steingríms voru sex aðrir handteknir vegna málsins. Þar af tvær konur. Hálf milljón fannst í peningum auk ellefu kílóa af hassi í húsleit lögreglunnar.
Sex eru í gæsluvarðhaldi hér á landi vegna málsins.