Eiður Smári Guðjohnsen og félagar hans í Barcelona verða að fresta því að fagna spænska meistaratitlinum eftir að hafa þurft að sætta sig við 3-3 jafntefli á heimavelli gegng Villarreal í dag.
Barcelona gat tryggt sér meistaratitilinn í dag eftir að Real Madrid tapaði fyrir Valencia 3-0 í gær og lengst af var útlit fyrir að Katalóníumennirnir gætu fagnað í kvöld.
Seydou Keita kom Barcelona yfir á 11. mínútu, en Joseba Llorenta jafnaði leikinn á 22. mínútu. Þeir Samuel Eto´o (36.) og Daniel Alves (45.) virtust svo hafa komið Barcelona í þægilega stöðu.
Þá tók franski varnarmaðurinn Eric Abidal upp á því að láta reka sig af velli í annað skiptið á fimm dögum hjá Barcelona og það nýttu gestirnir sér með tveimur mörkum á síðustu 12 mínútunum.
Eiður Smári Guðjohnsen var á varamannabekk Barcelona í leiknum og var skipt inn á völlinn á 90. mínútu fyrir Leo Messi, eða um það bil sem Villarreal jafnaði metin.
Barcelona hefur því enn 8 stiga forskot á Real Madrid á toppnum þegar þrjár umferðir eru eftir.