Íþróttastjórinn hjá spænska ríkissjónvarpinu gerði afdrifarík mistök á úrslitaleiknum í spænska konungsbikarnum í gær sem kostuðu hann starfið.
Einhverra hluta vegna sýndi spænska sjónvarpið ekki frá því þegar þjóðsöngurinn var spilaður fyrir leikinn heldur var þá skipt yfir á fréttamenn sem staddir voru í Bilbao og Barcelona að kanna stemminguna. Úrslitaleikurinn var spilaður á Mestalla leikvangnum í Valencia.
Í fyrstu var talið að sjónvarpsmennirnir hefðu klippt á útsendingu frá vellinum af því heyra mátti blístur í áhorfendum á meðan þjóðsöngurinn var leikinn, en síðar kom í ljós að blístrið heyrðist varla í útsendingunni. Hér var því aðeins um mistök að ræða.
Eins og flestir vita eru Baskar og Katalóníumenn ekki endilega stærstu aðdáendur Juans Carlosar Spánarkonungs.