„Við erum tvö frá Þýskalandi sem stöndum að þessu," segir Carl Henrik Deiting arkitekt sem hefur verið búsettur hér á landi síðastliðin tvö ár, um svokallaðan Leikhússporthóp sem hann stofnsetti fyrir tveimur mánuðum. Leikhússport byggist á spuna þar sem hópar keppa hvorir á móti öðrum á meðan áhorfendur hafa mikil áhrif á framvinduna.
„Í venjulegri leiklist þarf fólk að læra klassísk verk eins og Shakespeare, en í leikhússporti hefur maður frjálsari hendur og getur jafnvel leikið mismunandi hlutverk í sama verkinu. Við skiptum okkur í tvo hópa sem keppa hvor á móti öðrum í tíu til fimmtán mínútur í senn. Oft biðjum við áhorfendur um fimm ólík orð sem við spinnum svo út frá og þá getur senan til dæmis breyst frá því að læknir er á skurðstofu á Íslandi, yfir í að hann er staddur úti í skógi í Afríku. Við gefum áhorfendum einnig nammi og krumpuð blöð áður en við byrjum og ef vel gengur kasta þau namminu inn á sviðið, annars pappírnum," útskýrir Carl Henrik og segir leikhússportið hina mestu skemmtun.
„Hópurinn okkar heitir Impro theatre Reykjavík og þar sem hann samanstendur bæði af Íslendingum og útlendingum æfum við á ensku. Við vonumst til að fleiri vilji taka þátt og hvetjum þá sem vilja prófa til að koma á næsta fund sem verður í Alþjóðahúsinu við Laugaveg 37 í kvöld milli klukkan 19 og 22. Fólk þarf ekki að vera með reynslu af leiklist til að taka þátt," segir Carl Henrik.- ag