Þingflokkur Hreyfingarinnar áformar að tilnefna fulltrúa í þingnefnd sem ætlað er að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þrátt fyrir að allar breytingartillögur þingflokksins hafi verið felldar í atkvæðagreiðslu í morgun. Samkvæmt heimildum fréttastofu verður Birgitta Jónsdóttir fulltrúi flokksins í nefndinni.
Þingmenn Hreyfingarinnar sátu hjá í atkvæðagreiðslu þegar frumvarp forsætisnefndar um rannsókn á aðdraganda og orsökum bankahrunsins var samþykkt.
Í umræðum á Alþingi í morgun sagði Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, að frumvarpið væri vont og ótrúverðugt. Alþingi ætli að rannsaka sjálft sig. Þá gagnrýndi Þór að þingnefndin ætli að taka sér níu mánuði til að fara yfir skýrsluna og skila af sér froðu um næstu Verslunarmannahelgi þegar enginn taki eftir.
„Þrátt fyrir að hugmyndum Hreyfingarinnar hafi ekki verið veitt brautargengi af þingmönnum hverra flokkar áttu sæti á Alþingi fyrir haustið 2008 mun Hreyfingin halda áfram að fylgjast náið með málinu og áformar að tilnefna þingmann í umrædda þingmannanefnd og halda áfram að upplýsa um framvindu málsins," segir í tilkynningu frá þingflokki Hreyfingarinnar.

