Arsene Wenger hefur tröllatrú á sínum mönnum í Arsenal fyrir síðari leikinn gegn Manchester United í meistaradeildinni annað kvöld.
Arsenal tapaði fyrri leiknum 1-0 á Old Trafford en Wenger er sannfærður um að hans menn geti snúið dæminu við og farið alla leið í úrslitin.
"Það eru allir mjög einbeittir og tilbúnir í leikinn. Það verður frammistaða liðsins í heild en ekki einstaklinga sem ræður úrslitum. Ég er mjög bjartsýnn á hagstæð úrslit enda hefur okkur gengið vel á heimavelli. Við vorum ekki nógu frískir í fyrri leiknum en ég á von á að breyting verði þar á á þriðjudaginn. Við erum ekki taldir sigurstranglegri í þessu einvígi en fyrir mitt leyti er ég viss um að við getum farið áfram," sagði Wenger.