Þagnameistarinn Þorvaldur Gylfason skrifar 26. nóvember 2009 06:00 Umsátrið eftir Styrmi Gunnarsson, fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins, er furðusmíð. Bókin vitnar um takmarkaðan skilning höfundarins og helzta heimildarmanns hans, fyrrum seðlabankastjóra, á efnahagsmálum. Við þetta bætist vandræðaleg hlutdrægni höfundarins ásamt veikri sannmæliskennd. Að lesa bókina er hálfpartinn eins og að hlusta á Richard Nixon seint um kvöld, en þó án formælinganna, sem voru fangamark Nixons. Styrmir notar engin stóryrði. Ein lítil saga á bls. 51 bregður gagnlegri birtu á verkið. Þar er lýst samtali seðlabankastjórans við Timothy Geithner, nú fjármálaráðherra Bandaríkjanna, um mitt ár 2008 og viðbrögðum Geithners við þeim tíðindum, að forstjóri Evrópska seðlabankans „hefði nefnt þann möguleika, að Ísland leitaði til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Viðbrögð Geithners voru þessi…; „Aha. He offered you the kiss of death."" ... Og höfundur bókarinnar bætir við: „Þessi ummæli segja harla afdráttarlausa sögu um viðhorf Timothys Geithner til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins." Höfundurinn virðist ekki vita, að Geithner vann áður hjá AGS og stýrði þá þeirri lykildeild sjóðsins, sem mótar skilyrðin fyrir lánveitingum til aðildarlanda. Það er nær óhugsandi, að Geithner hafi reynt að varpa rýrð á AGS í samtali við erlendan seðlabankastjóra. Hver tryði þeim, sem héldi því fram, að höfundur Umsátursins hefði hallmælt Sjálfstæðisflokknum? Þeir, sem þekkja til AGS, hljóta að taka slíkri frásögn með fyrirvara, þótt höfundur bókarinnar taki hana trúanlega. Sögunni af Geithner og öðrum slíkum sögum virðist ætlað að styrkja þann boðskap höfundarins, að Íslendingar hafi verið beittir „fantatökum" (bls. 103) og „flæmdir í fang Alþjóðagjaldeyrissjóðsins" (bls. 107). Hann hljómar eins og vitorðsmaður brennuvargsins, sem sagðist hafa verið flæmdur í fangið á slökkviliðinu. Þessi tónn bergmálar ræðu seðlabankastjórans hjá Viðskiptaráði fyrir ári. Þar færði hann Færeyingum „heila þökk og blessun" og öðrum ekki, þar eð Færeyingar reyndust einir þjóða fúsir til að lána Íslendingum fé án skilyrða og án milligöngu AGS. Höfundur Umsátursins hefði heldur kosið skilyrðislaust lán frá Færeyjum, hefði það dugað, en lán AGS, sem var háð því skilyrði, að hagstjórnin væri færð í heilbrigt og traustvekjandi horf. Í bókinni örlar hvergi á skilningi á þörfinni fyrir að komast hjá mun meira gengisfalli en varð til að hlífa efnahag fólks og fyrirtækja með miklar skuldir í erlendri mynt. Þar liggur rauði þráðurinn í efnahagsáætluninni, sem var gangsett meðan Sjálfstæðisflokkurinn var enn við völd og enn er unnið eftir. Höfundur Umsátursins skilur ekki, hvers vegna ríkisstjórninni og Seðlabankanum var settur stóllinn fyrir dyrnar. Hann virðist ekki heldur skilja, að fjölskyldur þurfa stundum að sammælast um að stöðva ofdrykkju með afskiptum, sem sjúklingurinn kallar umsátur og fantatök. Honum er fyrirmunað að fjalla hlutlaust um orsakir bankahrunsins, enda skautar hann fram hjá því, að: (a) Sjálfstæðisflokkurinn seldi Landsbankann í hendur dæmdum sakamanni og syni hans við þriðja mann; (b) flokkurinn tryggði þannig framkvæmdastjóra flokksins framhaldslíf í bankaráðinu; (c) bankinn stofnaði útibú í Sankti Pétursborg, háborg rússnesku mafíunnar, svo sem Ríkisútvarpið greindi frá; (d) bankinn raðaði flokksmönnum á garðann; (e) aðaleigandi bankans og formaður bankaráðsins keypti Morgunblaðið; (f) nokkrum misserum síðar komst bankinn í þrot, og nema kröfurnar á hendur þrotabúinu nú meira en fjórfaldri landsframleiðslu; (g) aðaleigandi bankans lýsti sig síðan gjaldþrota í einu mesta gjaldþroti einstaklings, sem sögur fara af um heiminn; (h) bankastjórn Seðlabankans keyrði bankann í þrot og lagði þannig á herðar skattgreiðenda skuld, sem nemur um fimmtungi landsframleiðslunnar að mati AGS; og (i) nokkrir nánir samherjar höfundarins í Sjálfstæðisflokknum sæta nú opinberri rannsókn vegna gruns yfirvalda um lögbrot. Þögnin um allt þetta er ærandi á köflum og grefur undan gildi bókarinnar. Höfundur Umsátursins ber samt léttari farangur en sumir flokksfélagar hans. Hann skilur, að upphaf hörmunganna má að nokkru leyti rekja til kvótakerfisins og til einkavæðingar bankanna eftir sömu forskrift. Kvótakóngar keyptu stjórnmálamenn í kippum, segir hann fullum fetum. Hann segir hneykslaður: „Bæði í Danmörku og Svíþjóð ráða innmúraðar og innvígðar klíkur ferðinni í viðskiptalífinu." (bls. 105). Hann hafði áður notað sama orðalag um tiltekinn leynifund: „Þegar ég talaði um þetta mál við Jón Steinar hafði ég Kjartan með. Þetta er eins innmúrað og innvígt og nokkur hlutur getur verið …" Þagnameistarinn lýsir nú eftir opnu og gagnsæju samfélagi. Hann hefur snúizt gegn sjálfum sér. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Umsátrið eftir Styrmi Gunnarsson, fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins, er furðusmíð. Bókin vitnar um takmarkaðan skilning höfundarins og helzta heimildarmanns hans, fyrrum seðlabankastjóra, á efnahagsmálum. Við þetta bætist vandræðaleg hlutdrægni höfundarins ásamt veikri sannmæliskennd. Að lesa bókina er hálfpartinn eins og að hlusta á Richard Nixon seint um kvöld, en þó án formælinganna, sem voru fangamark Nixons. Styrmir notar engin stóryrði. Ein lítil saga á bls. 51 bregður gagnlegri birtu á verkið. Þar er lýst samtali seðlabankastjórans við Timothy Geithner, nú fjármálaráðherra Bandaríkjanna, um mitt ár 2008 og viðbrögðum Geithners við þeim tíðindum, að forstjóri Evrópska seðlabankans „hefði nefnt þann möguleika, að Ísland leitaði til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Viðbrögð Geithners voru þessi…; „Aha. He offered you the kiss of death."" ... Og höfundur bókarinnar bætir við: „Þessi ummæli segja harla afdráttarlausa sögu um viðhorf Timothys Geithner til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins." Höfundurinn virðist ekki vita, að Geithner vann áður hjá AGS og stýrði þá þeirri lykildeild sjóðsins, sem mótar skilyrðin fyrir lánveitingum til aðildarlanda. Það er nær óhugsandi, að Geithner hafi reynt að varpa rýrð á AGS í samtali við erlendan seðlabankastjóra. Hver tryði þeim, sem héldi því fram, að höfundur Umsátursins hefði hallmælt Sjálfstæðisflokknum? Þeir, sem þekkja til AGS, hljóta að taka slíkri frásögn með fyrirvara, þótt höfundur bókarinnar taki hana trúanlega. Sögunni af Geithner og öðrum slíkum sögum virðist ætlað að styrkja þann boðskap höfundarins, að Íslendingar hafi verið beittir „fantatökum" (bls. 103) og „flæmdir í fang Alþjóðagjaldeyrissjóðsins" (bls. 107). Hann hljómar eins og vitorðsmaður brennuvargsins, sem sagðist hafa verið flæmdur í fangið á slökkviliðinu. Þessi tónn bergmálar ræðu seðlabankastjórans hjá Viðskiptaráði fyrir ári. Þar færði hann Færeyingum „heila þökk og blessun" og öðrum ekki, þar eð Færeyingar reyndust einir þjóða fúsir til að lána Íslendingum fé án skilyrða og án milligöngu AGS. Höfundur Umsátursins hefði heldur kosið skilyrðislaust lán frá Færeyjum, hefði það dugað, en lán AGS, sem var háð því skilyrði, að hagstjórnin væri færð í heilbrigt og traustvekjandi horf. Í bókinni örlar hvergi á skilningi á þörfinni fyrir að komast hjá mun meira gengisfalli en varð til að hlífa efnahag fólks og fyrirtækja með miklar skuldir í erlendri mynt. Þar liggur rauði þráðurinn í efnahagsáætluninni, sem var gangsett meðan Sjálfstæðisflokkurinn var enn við völd og enn er unnið eftir. Höfundur Umsátursins skilur ekki, hvers vegna ríkisstjórninni og Seðlabankanum var settur stóllinn fyrir dyrnar. Hann virðist ekki heldur skilja, að fjölskyldur þurfa stundum að sammælast um að stöðva ofdrykkju með afskiptum, sem sjúklingurinn kallar umsátur og fantatök. Honum er fyrirmunað að fjalla hlutlaust um orsakir bankahrunsins, enda skautar hann fram hjá því, að: (a) Sjálfstæðisflokkurinn seldi Landsbankann í hendur dæmdum sakamanni og syni hans við þriðja mann; (b) flokkurinn tryggði þannig framkvæmdastjóra flokksins framhaldslíf í bankaráðinu; (c) bankinn stofnaði útibú í Sankti Pétursborg, háborg rússnesku mafíunnar, svo sem Ríkisútvarpið greindi frá; (d) bankinn raðaði flokksmönnum á garðann; (e) aðaleigandi bankans og formaður bankaráðsins keypti Morgunblaðið; (f) nokkrum misserum síðar komst bankinn í þrot, og nema kröfurnar á hendur þrotabúinu nú meira en fjórfaldri landsframleiðslu; (g) aðaleigandi bankans lýsti sig síðan gjaldþrota í einu mesta gjaldþroti einstaklings, sem sögur fara af um heiminn; (h) bankastjórn Seðlabankans keyrði bankann í þrot og lagði þannig á herðar skattgreiðenda skuld, sem nemur um fimmtungi landsframleiðslunnar að mati AGS; og (i) nokkrir nánir samherjar höfundarins í Sjálfstæðisflokknum sæta nú opinberri rannsókn vegna gruns yfirvalda um lögbrot. Þögnin um allt þetta er ærandi á köflum og grefur undan gildi bókarinnar. Höfundur Umsátursins ber samt léttari farangur en sumir flokksfélagar hans. Hann skilur, að upphaf hörmunganna má að nokkru leyti rekja til kvótakerfisins og til einkavæðingar bankanna eftir sömu forskrift. Kvótakóngar keyptu stjórnmálamenn í kippum, segir hann fullum fetum. Hann segir hneykslaður: „Bæði í Danmörku og Svíþjóð ráða innmúraðar og innvígðar klíkur ferðinni í viðskiptalífinu." (bls. 105). Hann hafði áður notað sama orðalag um tiltekinn leynifund: „Þegar ég talaði um þetta mál við Jón Steinar hafði ég Kjartan með. Þetta er eins innmúrað og innvígt og nokkur hlutur getur verið …" Þagnameistarinn lýsir nú eftir opnu og gagnsæju samfélagi. Hann hefur snúizt gegn sjálfum sér.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun