Samkvæmt nýrri hagspá Alþjóðagjaldeyrisjóðsins (AGS) er kreppan nú að losa um tak sitt á alheimshagkerfinu og bati, þó veikur sé, er í sjónmáli.
Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að spá Alþjóðagjaldeyrisjóðsins gerir ráð fyrir að hagkerfið á heimsvísu dragist saman um 1,4% á þessu ári, sem er í samræmi við fyrri spár sjóðsins. Spáin fyrir næsta ár hefur hins vegar verið uppfærð og gerir sjóðurinn nú ráð fyrir 2,5% hagvexti árið 2010, en í fyrri spá frá því í apríl var gert ráð fyrir innan við 2% vexti.
Mestu munar þar um að sjóðurinn metur horfurnar nú mun skárri framundan í tveimur af stærstu hagkerfum heimsins, Bandaríkjunum og Japan. AGS spáir nú að hagvöxtur verði 0,8% í Bandaríkjunum árið 2010 eftir að hafa dregist saman um 2,6% á þessu ári. Þá gerir spáin ráð fyrir að japanska hagkerfið dragist saman um 6% á þessu ári en vaxti svo um 1,7% á næsta ári.
Þetta eru mun bjartari spár en sáust fyrir aðeins nokkrum mánuðum síðan. Auk þessa hækkaði AGS spár sínar fyrir hagvöxt í ýmsum af stærstu nýmarkaðsríkjunum á næsta ári.
Oliver Blanchard aðalhagfræðingur AGS sagði í gær, þegar spáin var kynnt, að öflin sem væru að draga alheimshagkerfið niður væru nú orðin veikari en áður en hinsvegar væru öflin sem draga hagkerfið upp á við ennþá afar veik. Batinn framundan verður því hægur en mestu munar þó um að batinn sé vissulega í sjónmáli.
Sjóðurinn varar hinsvegar við að kreppan sé enn ekki að baki þrátt fyrir að erfiðasti hjallinn væri búinn, enda eru fjármálafyrirtæki ennþá veik og aðgengi að lánsfé skert.