Barcelona bætti í kvöld enn einum titlinum í safnið er liðið bar sigurorð af Shakhtar Donetsk frá Úkraínu í Meistarakeppni UEFA í kvöld. Leikurinn fór fram í Mónakó.
Það var varamaðurinn Pedro Rogrigues sem skoraði sigurmark leiksins í síðari hálfleik framlengingarinnar en þetta var jafnframt eina mark leiksins.
Markið skoraði hann eftir laglegan samleik við Argentínumanninn Lionel Messi en annars var fátt um fína drætti í leiknum.
Annar varamaður, Julius Aghahowa hjá Shakhtar, komst næst því að skora fyrir Úkraínumennina en Victor Valdes varði vel frá honum.
Eiður Smári Guðjohnsen var á varamannabekk Barcelona en kom ekki við sögu í leiknum.