Það verður enginn Guti í liði Real Madrid á móti Barcelona í El Clasico á laugardaginn. Guti tognaði illa á ökkla á æfingu og gengur nú um Madridarborg á hækjum.
Guti lenti í samstuði við varamarkvörðinn Jerzy Dudek á æfingunni með þeim afleiðingum að hann tognaði illa á ökkla og þurfti að fara upp á sjúkrahús til meðhöndlunar.
Guti hefur ekki fengið alltof mörg tækifæri hjá Juande Ramos þjálfara Real Madrid en flestir bjuggust við því að hann fengi að spila á móti Barcelona eftir að hann skoraði flott mark beint úr aukaspyrnu í 3-2 sigrinum á Getafe um síðustu helgi.