Nú stendur yfir keppnin um hinn svokallaða Forsetabikar á Harding Park golfvellinum í San Francisco í Kaliforníu þar sem kylfingar frá Bandaríkjunum etja kappi við alþjóðlegt lið kylfinga utan Bandaríkjanna og Evrópu.
Leikið var með fjórmennings-fyrirkomulagi fyrsta leikdaginn en þar unnu Bandaríkjamenn þrjá leiki og Alþjóðaliðið tvo en einum leik lauk með jafntefli. Bandaríkjamenn eru því með eins stigs forskot, 3,5-2,5.
Forystan hefði getað verið enn meiri ef Justin Leonard hefði sett niður pútt á átjándi holu fyrir Bandaríkjamenn en hann gerði það ekki og það einvígi endaði í jafntefli.