Real Madrid bætti enn heldur vafasamt met sitt er liðið féll úr leik í Mestaradeild Evrópu í gærkvöldi. Þetta er fimmta árið í röð sem liðið fellur úr leik í 16-liða úrslitum keppninnar.
Ekkert lið hefur fallið jafn oft úr leik í Meistaradeildinni á þessu stigi keppninnar, hvað þá svona oft í röð. Porto kemur næst á þessum vafasama lista en liðið hefur alls fallið úr leik þrisvar í 16-liða úrslitunum.
Eins og kunnugt er tapaði Real Madrid í gær fyrir Liverpool á Anfield með fjórum mörkum gegn engu og samtals 5-0 eftir báða leikina.
Hin liðin fjögur sem hafa slegið Real Madrid úr keppninni á undanförnum árum eru Roma, Bayern München, Arsenal og Juventus. Það er því óhætt að segja að Real Madrid hafi ekki beinlínis verið heppið með andstæðing sinn í 16-liða úrslitunum á þessum tíma.