Miðjumaðurinn Patrick Vieira viðurkennir að fyrra mark Manchester United gegn liði hans Inter á Old Trafford í gær hafi verið sér að kenna.
Þessi reyndi fyrrum Arsenal maður sofnaði á verðinum í teignum og leyfði Nemanja Vidic að skalla boltann í markið hjá Inter strax í byrjun leiks, en enska liðið vann leikinn 2-0 eins og flestum ætti að vera kunnugt.
"Fyrra markið var mér að kenna, ég verð að viðurkenna það," sagði Vieira. Markið sneri leiknum og því miður ráðast úrslitin í svona leikjum á augnablikum sem þessum. Okkur tókst ekki að nýta færin okkar og við erum enn og aftur fallnir úr leik í Meistaradeildinni," sagði Vieira.
Inter féll úr leik fyrir Liverpool á síðustu leiktíð og hefur þar áður dottið úr leik gegn liðum eins og Milan, Villarreal og Valencia.
"Við spiluðum mun betur í ár en í fyrra, en við vorum líka að spila við sterkara lið að þessu sinni. Við erum með hörkulið en virðumst alltaf falla snemma úr keppni. Við höfum valdið vonbrigðum," sagði Frakkinn.