Miðjumaðurinn Yaya Toure er brjálaður yfir því að hafa þurft að verma varamannabekk Barcelona í „El Clásico" leiknum gegn Real Madrid um helgina en Sergio Busquets var í byrjunarliðinu í hans stað.
Toure skrifaði undir nýjan þriggja ára samning við Barcelona í sumar eftir að hafa verið orðaður við mörg stórlið og hélt að nýr samningur myndi þýða að hann fengi fleiri tækifæri í byrjunarliði Barcelona en annað hefur komið á daginn.
Toure hefur reyndar verið að glíma við veikindi og meiðsli á þessu tímabil og aðeins byrjað fjóra leiki í byrjunarliðinu en er augljóslega ósáttur með gang mála.
„Ég hélt að þegar stórlið á borð við Barcelona myndi bjóða þér nýjan samning þá myndi það þýða að viðkomandi leikmaður væri álitinn mikilvægur leikmaður í liðinu sem yrði ekki bara geymdur á bekknum.
Þetta er hreint út sagt ótrúleg staða og ég verð að fara betur yfir stöðuna upp á framtíðina að gera ef heldur sem horfir. Ég er 26 ára og vill vera að spila en þetta er vissulega undir knattspyrnustjóranum komið," segir Toure ósáttur í viðtali við France Football.
Bæði Arsenal og Manchester United eru sögð samkæmvt breskum fjölmiðlum mjög áhugasöm um að fá Toure fari svo að hann hugsi sér til hreyfings frá Nývangi.