Á golfvefnum kylfingur.is, er sagt frá óförum eins efnilegasta kylfings Austurlands sem var einu höggi frá því að komast í gegnum niðurskurðinn á Íslandsmótinu í höggleik í Grafarholti.
Hrafn Guðlaugsson er 18 ára kylfingur úr Golfklúbbi Fljótsdalshéraðs sem lauk keppni eftir annan dag á Íslandsmótinu í höggleik á 163 höggum eða 21 höggi yfir pari. Hann var þá í 75. sæti en 74 fyrstu kylfingarnir fóru í gegnum niðurskurðinn.
Þetta þýddi að í stað þess að halda áfram leik á Íslandsmótinu í Grafarholti þá hélt hann heim á leið eftir keppni föstudagsins. Hrafn tók síðan þátt í æfingarleik í fótbolta með Hetti frá Egilsstöðum gegn Fjölni á sunnudeginum og varð fyrir því óláni að fótbrotna eftir harða tæklingu.
Hrafn Guðlaugsson hefur verið að spila vel í sumar en hann hefur starfað sem vallarstjóri á Ekkjufellsvelli í Fellabæ og er farinn að þekkja völlinn vel því hann setti í sumar vallarmet á honum með því að leika hann á 67 höggum.

