Rafa Benitez, stjóri Liverpool, reyndi að bera sig vel þó svo Liverpool þurfi á kraftaverki að halda til þess að komast áfram í Meistaradeildinni.
„Aftur skorar Lyon undir lokin. Það var sárt. Við vorum í vandræðum fyrir leikinn en mér fannst liðið bregðast vel við," sagði Benitez og reyndi að kreista fram bros.
„Við vorum óheppnir undir lokin en ég er samt ánægður með leikmennina. Þeir lögðu hart að sér. Fótboltinn er stundum skrítinn og ekki alltaf sanngjarn," sagði Benitez.
Liverpool þarf nú að vinna báða þá leiki sem liðið á eftir og þarf þess utan að treysta á að Fiorentina misstígi sig gegn Lyon.
„Við verðum að vinna og vona það besta með hina leikina. Þetta verður erfitt en við getum ekki annað en haldið áfram og gert okkar besta."