José Mourinho, þjálfari ítalska liðsins Inter, fór létt með það að hrósa sjálfum sér um leið og hann hrósaði Kamerúnmanninum Samuel Eto'o. Inter mætir Barcelona í Meistaradeildinni í kvöld.
„Á síðasta ári var Zlatan Ibrahimovic besti sóknarmaður í heimi og þá spilaði hann hjá okkur. Nú er Samuel Eto'o sá besti í heimi því mínir leikmenn eru alltaf betri en aðrir," sagði Mourinho í viðtalið við vefsíðuna 1asport.de.
Þeir Eto'o og Ibrahimovic hafa báðir byrjað vel á nýjum stað. Samuel Eto'o er búinn að skora tvö mörk í fyrstu þremur leikjum sínum með Inter í ítölsku deildinni. Zlatan Ibrahimovic hefur skorað mark í fyrstu tveimur leikjum Barcelona í spænsku deildinni.