Ensku úrvalsdeildarfélögin Sunderland, Bolton, Portsmouth og nýliðar Wolves eru öll sögð hafa áhuga á að fá spænska framherjann Raul Tamudo í sínar raðir í sumar.
Hinn 31 árs gamli Tamudo er fyrirliði og aðalmarkaskorari Espanyol en vegna klausu í samningi leikmannsins er hann falur fyrir um tvær milljónir punda samkvæmt heimildum spænskra fjölmiðla.
Tamudo var reyndar einnig auglýstur til sölu hjá Espanyol í fyrra vegna bágrar fjárhagsstöðu félagsins en þá var kaupverðið helmingi hærra og undirtektir áhugasamra félaga litlar sem engar.
Tamudo hefur skorað 129 mörk á níu keppnistímabilum með spænska félaginu en Espanyol endaði í tíunda sæti á nýafstaðinni leiktíð og Tamudo var þá markahæstur með sex mörk.