Jóhannes Kristbjörnsson, fyrrum körfuboltamaður, skrifar reglulega skemmtilega pistla á heimasíðu körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur og hann var enn á ný á ferðinni eftir frábæran sigur Njarðvíkur í toppslag Iceland Express deildarinnar í gær.
„Njarðvíkingar unnu frábæran og afgerandi sigur á Keflvíkingum í Ljónagryfjunni í kvöld. Þá er það frá og hátíðirnar tryggð skemmtun, hérna innanbæjar. Ég hafði ekki trú á því að þetta yrði svona afgerandi.
Ég hafði ekki trú á því að okkar menn næðu að gera sverð nágrannanna að sakleysislegum kústsköftum. Gunni Einars, nonfactor. Jón Nordal, nonfactor, Sverris Sverris, nonfactor. Rashon Clark, one-way-ticket," skrifar Jóhannes á síðunni og hann hrósar þar einnig manni leiksins, hinum 23 ára Kristjáni Rúnari Sigurðssyni.
„Verð líka að viðurkenna að maður leiksins hefði ekki fengið atkvæði hjá mér fyrirfram. Svo virtist sem okkar menn hafi ákveðið fyrirfram "fagn" eftir hvern þrist sem settur yrði niður, nokkurs konar "mont" eða "sjálfstrú" eftir því hvernig er litið á málin.
Þegar Krissi "byssa" kom af bekknum í fyrsta leikhluta, þegar sóknarleikur beggja liða var stirðbusalegur, og setti ískaldur niður einn af kantinum í sinni fyrstu snertingu var ljóst að þetta "fagn" virkar fyrir hann," skrifar Jóhannes í þessum skemmtilega pistli sem má finna í heild sinni hér.