Lawrie Sanchez, fyrrum landsliðsþjálfari Norður-Íra, segir í samtali við norska fjölmiðla að hann vilji gjarnan gerast þjálfara norska landsliðsins.
„Ég hef sóst eftir starfinu," sagði hann í samtali við Nettavisen. „Ég hef mikinn áhuga á því. Noregur á gott lið, ég er á lausu og ég vonast til að fá viðtal hjá norska knattspyrnusambandinu."
Sanchez þjálfaði landslið Norður-Íra frá árunum 2004 til 2007 og vann marga góða sigra á þeim árum. Ísland og Norður-Írland voru saman í riðli fyrir EM 2008 og mættust liðin í fyrstu umferð undankeppninnar. Ísland vann 3-0 sigur í Belfast og Sanchez var harkalega gagnrýndur eftir tapið.
En hann hætti áður en undankeppninni lauk og tók þá við enska úrvalsdeildarliðinu Fulham. Nigel Worthington tók við starfi hans hjá Norður-Írlandi en Ísland vann síðari leik liðanna á Laugardalsvelli.
Þessi tvö töp Norður-Íra fyrir Íslandi urðu til þess að þeir komust ekki í úrslitakeppni EM 2008. En á þeim tíma sem Sanchez var þjálfari hoppaði liðið upp um 97 sæti á styrkleikalista FIFA.
Ståle Solbakken, þjálfari FCK, hefur einnig verið sterklega orðaður við starfið.
