Handbolti

Sakar Viggó um niðurrif

Elvar Geir Magnússon skrifar
Viggó Sigurðsson.
Viggó Sigurðsson.

Guðjón L. Sigurðsson, formaður dómaranefndar HSÍ, sakar Viggó Sigurðsson um niðurrif og ófaglega gagnrýni á dómarastéttina á Íslandi. Þetta kom fram í fréttum á Stöð 2 í kvöld.

„Það er eftirlit á leikjum hérna samkvæmt því kerfi sem evrópska og alþjóða handknattleikssambandið notar. Við getum náttúrulega ekki gert betur en það," sagði Guðjón.

Í viðtali í gær sagði Viggó að mörg dómarapör hér á landi væru óhæf en tengill á viðtalið er neðst í þessari frétt. „Þetta er búið að vera klisja í mörg ár og kannski er breiddin hjá okkur minni en hjá öðrum, ég veit það ekki," sagði Guðjón.

Viggó hefur látið hörð orð falla. „Ég fæ yfirleitt gult spjald eftir 30 sekúndur og álít það vera skipun að ofan," segir Viggó en Guðjón segir að hann fái einfaldlega það sem hann eigi skilið. „Ef hann vill fá gult eftir 30 sekúndur þá getur hann það eflaust en hann getur líka alveg sleppt því," sagði Guðjón.

„Það má alltaf gagnrýna en gagnrýni þarf að vera jákvæð. Eitt er gagnrýni en annað er að rífa niður. Ég vil meina að sumt að því sem Viggó hefur látið frá sér að undanförnu sé ekki gagnrýni."

Formenn dómaranefnda norðurlanda fylgdust með bikarúrslitaleikjunum um síðustu helgi og voru hissa á þolinmæði dómara í garð þjálfara, sérstaklega í karlaleiknum. „Þeir spurðu sérstaklega í hálfleik hvort þetta væri virkilega svona hér á landi. Ég sagði þeim að því miður væri erfitt að ná tökum á þessu. En þeir sögðu það líka að ef þetta hefði gerst erlendis hefðu þessir menn verið komnir með rautt spjald í fyrri hálfleik," sagði Guðjón.


Tengdar fréttir

Viggó: Ósvífni og viðbjóður

Mútumál skekur þýska handboltann. Forráðamenn Kiel eru grunaðir um að hafa mútað pólskum dómurum fyrir úrslitarimmu Meistaradeildarinnar árið 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×