Framherjinn Diego Forlan hjá Atletico Madrid átti frábært tímabil á nýafstaðinni leiktíð þar sem hann varð markakóngur í spænsku úrvalsdeildinni með 32 mörk og flest stórlið Evrópu sögð á höttunum eftir honum.
Talsmaður hins þrítuga Forlan segir kappann þó vera afar ánægðan hjá Atletico Madrid og að ekkert kauptilboð hafi enn borist í hann.
„Diego hefur ekki fengið tilboð frá neinu félagi, hvorki Barcelon né Real Madrid. Þetta eru allt bara orðrómar í spænskum fjölmiðlum og eins og staðan er í dag þá er hann ákaflega ánægður á Vicente Calderon," segir Daniel Bolotnikoff talsmaður Úrúgvæmannsins í samtali við spænska fjölmiðla í dag.
„Hlutirnir eru samt oft fljótir að breytast í boltanum og ef eitthvað breytist þá tæklum við það bara þegar þar að kemur,"segir Bolotnikoff.